Oft verja menn af mestri sannfæringu það sem þeir þekkja minnst. Ekki hneykslast. Það sýnir andlegan þroska að aðhyllast eitthvað sem maður skilur ekki.
Orðið snobb á víst uppruna sinn í kirkjubókum einhverjum. Við nafn hvers nýbura var skráður aðalstitill ef við átti. Þeir sem engan titil báru voru merktir upp á latínu sine nobilitate, skammstafað s.nob. Skammstöfunin var síðan væntanlega notuð í talmáli um þá sem gerðu sér far um að umgangast hefðarfólk án þess að vera þess umkomnir. Orðið á sumsé við um þann sem leitar á einhvern hátt upp fyrir sig.
Þetta er vanmetinn eiginleiki.
1) Jæja, snobb í veraldlegum efnum er viðsjárvert. Menn eyða um efni fram til að þykjast efnaðri en þeir eru. Það getur orðið þeim að falli.
2) Þó er eins og fólki sé frekar álasað fyrir annars konar snobb: Bókmennta- lista- eða menningarsnobb. Er ekki efnasnobbið oft hulið jákvæðari orðum eins og metnaður eða dugnaður?
3) Listasnobbarinn er sakaður um tilgerð. Hann ku upphefja sig með einhverju sem hann hefur ekki vit á. En hversu mikinn skilning þurfa menn að hafa til að áhugi þeirra teljist ekki snobb? Hafa allir þeir sem fara á völlinn svo mikið vit á fótbolta? Listasnobbarinn er ekki að upphefja sig frekar en klappstýran.
4) Listasnobb er í raun bara trúin á að listin feli í sér eitthvað sem er þess virði að þekkja. Snobb almennt er viðurkenning á því að til séu gildi sem við þráum að höndla þótt þau séu handan seilingar um stundar sakir eða löngum.
5) Það skiptir ekki miklu hvort hinn snobbaði fær um síðir einhverja dýpri þekkingu á innviðum listarinnar (hvað sem það nú er). Að fara á tónleika, sýningu eða lesa góða bók er alltaf hollara en að gera það ekki, eins þótt manni leiðist, eða taki bara eftir aukaatriðum. Oftast verður þetta auðvitað að sérstakri þekkingu eða reynslu sem auðgar manninn. Svo gætu menn fyrir slysni orðið nobb, innvígðir. Ég viðurkenni fúslega að það sem fyrst hreif mig við bækur var lyktin af þeim. Svo reyndist ágætt að blaða í þeim til að hafa eitthvað fyrir stafni á meðan ég lyktaði.
6) Kannski má lýsa öllum þekkingarþorsta sem snobbi. Þegar barnið bullar, er það ekki málsnobb? En þannig lærir það að tala.
7) Megi menn vera einarðir í snobbi sínu en ekki þykjast betri fyrir það.