EINLÆGNI?

Stundum er listaverki hrósað fyrir einlægni.  Þetta hef ég aldrei skilið.

 1)  Sá telst einlægur sem segir umyrðalaust það sem hann hugsar. Um leið og hann færir lítið eitt í stílinn er hann hins vegar farinn að fást um áhrif orða sinna, ekki bara innihaldið.  Algengt er að menn beiti vísvitandi orðalagi eða látbragði sem á að undirstrika einlægnina.  Þeir leika einlægni.  Þar með rýrnar hún.
2) Nú sest ég niður og bý til listaverk.  Sú vinna felur í sér vangaveltur um hvernig eigi að setja hugmyndir fram.  Þar er jafnvel eftirsóknarvert að þær séu tví- eða margræðar.  Ekki er gott að átta sig á því hvað þá verður um einlægnina.
3)  Það er svo sem ekki ámælisvert þótt áhorfandi lýsi með þessu orði einhverju sem hann upplifir í verkinu.  Öllu skrýtnara er þegar listamaðurinn hendir þetta á lofti og setur á stefnuskrána.
4)  Bernska, einfaldleiki eða næfismi einkenna stíl margra ágætra listamanna.  Þetta er stíll, frásagnaraðferð, og ekki er hægt að draga neinar ályktanir um einlægni þeirra af þessu.
5)  Listaverk hefur tvær hliðar.  Annars vegar er það smíðisgripur, eitthvað sem við skynjum.  Þessari hlið stjórnar höfundurinn.  Hins vegar er það merking, allt það sem smíðisgripurinn kveikir í hugarheiminum.  Hér eru ítök höfundarins minni.  Hann hefur þó auðvitað sínar væntingar um útgeislun verksins.  Í stuttu máli má segja að hann hafi afgerandi áhrif á hvað verkið er en stjórni því ekki fullkomlega sem það segir.  Semsé í vissum skilningi hvað hann sjálfur segir með verkinu. 
6) Umrætt orð á einfaldlega ekki við um listaverk.  Og listamaður sem læst vera einlægur er annað hvort óupplýstur eða tvöfaldur í roðinu.
7) Eða er átt við heiðarleika?  Það er skiljanlegra.  Heiðarlegur er segjum sá höfundur sem ekki sparar við sig vinnu, hættir ekki á miðri leið.  Fer þangað sem formin draga hann þótt það þýði að hann verði ekki lengur þessi "hann sjálfur" sem sumir vilja setja á stall.  Verkið er einfaldlega ekki til að upphefja höfundinn eða hans hugrenningar.
8)  "Ég met einlægni höfundar af tæknilegri fullkomnun verkanna" sagði Ezra Pound einu sinni.  Það má altént telja heiðarlegt að nota ekki einlægni sem afsökun fyrir andlegri leti.
9)  Jæja skyldi vera til undantekning: Kannski eru þeir sem hafa ekkert að segja mjög einlægir þegar þeir segja það...