OFHUGSAÐ - VANHUGSAÐ

Málvitund er sæmilegt orð.  Þó skortir það holdlega keiminn sem er af orðunum máltilfinning eða málkennd, en þau láta verr í eyrum.  Erum við ekki annars að tala um tilfinningu, einhvern seiðing sem flæðir um tunguna, eyrun, raddböndin, vöðva og taugar, og heilann auðvitað?  Það er nefnilega ekki nóg að hugsa málið, við finnum það líka.  Og það tengir ekki bara hugmyndir heldur okkur við heiminn.

Þeir sem eru langdvölum erlendis fara stundum að sakna návistar við málið og óttast að tapa málkenndinni. Tungutak þeirra getur orðið dálítið ritmálskennt og þeir ofvanda kannski framburðinn.  Svo snúa þeir heim og sjá slettur, ambögur, mál- og stafsetningarvillur alls staðar.  Var þjóðin þá lengur í burtu en þeir?

Það er engin sérstök ástæða til að róa þá.  Samt má reyna að grisja þetta eitthvað.

 1)  Stafsetning hefur aldrei verið á hreinu hjá þjóðinni.  Málinu hefur svo sem ekki hrakað þess vegna.
2)  Beygingar og orðnotkun riðlast sjálfsagt eftir því sem fólk talar minna saman.  Rangar beygingar hafa ekki náð yfirhendinni ennþá en nokkuð hefur gengið á orðaforðann. 
3)  Slettur þurfa ekki að vera til marks um hrörnandi mál, ekki ef þeir sem nota þær eru í lifandi sambandi við umræðuefnið:  Þegar nær allt skemmtiefni ungs fólks – og því stór hluti reynslu þess – er á ensku væri það heldur til marks um dauflega málkennd að sletta ekki.  Það gleymist gjarnan að sletta er stílbragð.
4) Þegar máltilfinningin slappast verður helst tvennt til ráða: Vanhugsað mál eða ofhugsað.
5)  Vanhugsað mál forðast öll óvissusvæði og beygingar og nærist á tuggum.
6)  Þeim sem ofhugsa málið svipar til manns sem fengið hefur höfuðhögg:  Þegar hann raknar úr rotinu kann hann ennþá öll orðin í málinu en hefur gleymt hvernig þau eru notuð.  Þá reynir hann að byggja málvitundina á rökum.  Alls kyns vandræði hljótast auðvitað af þessu: Hann sér orðið fress og hugsar: "Það er karldýr.  Þetta hlýtur að vera karlkynsorð".  Hann ofnotar beygingarendingar, segir kannski frá grauti. Hann þorir ekki að nota kjarnmikil orð eins og mannbær, tussulegur, klámhögg og sögnina að fokka því hann tengir þau einhverjum feimnismálum.  Svo telur hann orðasambandið "helmingi meira" þýða fimmtíu prósent meira.  Ranglega.
7) Ég hef stundum lent í sporum hans og þá rifjast það upp að rökhugsun kemur ekki í stað tilfinningar, minnis eða sköpunargleði.  Vaknið, ó, málskræfur og skynsemisrolur!
8) Þetta síðasta orð er víst smíðað af barni.