Þegar vitundin mætir heiminum verður til þekking. Reyndar er fundur þeirra sjaldnast átakalaus. Stundum gneistar svolítið á milli. Gneistarnir eru þá tilfinningarnar. Tilfinningar innihalda sérstakan sannleika, einkalegan, djúpstæðan og ósegjanlegan. Sagt er að tónlistin sé sú listgrein sem mest höfðar til tilfinninga, enda er margt í henni sem minnir okkur á áðurnefnt neistaflug. Því álykta margir sem svo að hún snúist um tjáningu tilfinninga. Þetta er ekki alveg svona einfalt.
1) Ef átt er við að tónlist geti án söngtexta tjáð einhverja tilfinningu sem hægt er að nefna – segjum gleði, sorg eða ótta – hlýtur hún að gera það á síbreytilegan hátt. Ekki er til neinn afmarkaður tón-orðaforði til þess arna, enda breytist tónlistin stöðugt, ýmist smám saman eða skyndilega. Auk þess hefur hver höfundur – og stundum hvert menningarsvæði – sitt tónmál.
2) Samkvæmt þessu væru þá til óendanlega margar leiðir til að tjá þessa tilfinningu.
3) En ef til eru svo margar leiðir til að segja eitthvað hlýtur að vera fréttnæmara hvernig ég segi það en hvað það er. Það fréttnæma – upplýsingarnar; tjáningin – er þá hvernig ég segi þetta. Þá tjáir tónlistin ekki beint þessa tilfinningu heldur leiðina að markinu, tónmálið sem notað er. Það breytir öllu: Hún tjáir þá mál, form en ekki tilfinningu.
4) Eða er þetta útúrsnúningur? Hvað ef sagt er að tónlistin tjái ekki þekktar tilfinningar sem hægt er að nefna heldur ósegjanlegar og flóknar kenndir. Eitthvað sem aðeins er hægt að segja svona eins og verkið gerir það?
5) Þetta mætti umorða sem svo: Tónverkið tjáir þá tilfinningu sem við finnum þegar við heyrum það. Eða: Það tjáir nákvæmlega þetta sem það tjáir. Ekki voru það mikil tíðindi!
6) Eiginlega segir þessi niðurstaða okkur ekki neitt, og ekki hvers vegna viðfangsefni verksins ætti að vera tilfinningar frekar en eitthvað annað utan þess.
7) Þeir sem einskorða tjáningu verks við tilfinningar rugla í raun saman orsök og afleiðingu. Allt eins mætti segja að álagningarseðlar skattstofunnar tjái tilfinningar af því þeir kveikja þær.
8) Tónlistarmaðurinn getur sem sagt ekki, þótt hann vildi, tjáð tilfinningar einungis með tónum, en alls kyns tilfinningar þyrlast upp í hlustandanum þegar hann heyrir tónana.
9) Auðvitað bera tónskáld lotningu fyrir tilfinningum og líklega hafa þær áhrif á vinnu þeirra. Það nægir ekki til að líta megi á verkin sem tjáningu þeirra. Auk þess gæti hjartað verið þeim heilagra en svo að nota megi sem efnivið...hvað þá beitu.