Ég hafði séð ófáar gamlar óperur á sviði þegar rann loksins upp fyrir mér hvað þetta var merkilegt leikhús.  Reyndar ekki á sviðinu heldur í salnum: Háþróaður hópspuni sem gekk út á að láta eins og sviðsetningin væri áhrifamikil.  Léki hver og einn áhorfandi sitt hlutverk samviskusamlega varð hún það í raun.  Að vissu leyti.

En æ færri virðast æfðir í þessum spuna.

 1) Auðvitað hrífast menn líka í raun og veru:  Af góðri tónlist, góðum söng og merkingarríkri sjónrænni umgjörð.  En er það sviðslistræn upplifun?  Hvað um textann, sem oftast er ekki inni í skynmyndinni?  Eða líkamstjáning, hvað um hana?  Og raunveruleg leikhvörf, coup de théatre, eru þau bönnuð?

2)  Lítum á stöðu leikstjórans.  Óperan er eiginlega eins og lágmynd á vegg og hann eins og málari sem á að lita hana.  Ef hann gerist of djarfur er kvartað yfir að lágmyndin njóti sín ekki.  Ætlast er til að hann vinni af hógværð og listfengi og fari ekki að hreyfa um of við undirlaginu. Hann á ekki að endursegja lágmyndina, bara lita.

3)  Til að nálgast óperuna eins og lifandi leikhús þarf hann líklega að tempra lotningu sína fyrir upprunalegri mynd verksins, líta bara á tónlistina eins og hvern annan leiktexta:  Breyta ef hann telur sig hafa nægar listrænar ástæður til.  Sem er að vísu erfitt því tónlistin er sterkbyggð og frek.

4)  Þá væri ágætt fyrir hann að minnast þess að óperan var ekki fundin upp af söngvurum og í raun ekki af tónskáldum heldur.  Óperan þarf einfaldlega að brjótast út úr sjálfhverfum heimi sínum, úr gíslingu óperuunnenda þar sem söngvarar og tónskáld eru stundum eins og fangaverðir.

5)  Allir innviðir hennar ættu að vera í þjónustu HUGMYNDAR.  Enginn efast um þá kynngi sem felst í listrænum samruna texta, tónlistar og sviðs.  Hana þarf stöðugt að enduruppgötva.

6)  Áfram verður karpað um efnahagslegar forsendur óperuflutnings.  En er verið að tala um lifandi sviðslist eða trúarbrögð?  Kannski er vandi óperunnar ekki fjárhagslegur heldur fyrst og fremst listrænn.

7)  Óperuleikhúsið þarf að gera upp hug sinn hvort það vill heldur bjóða áhorfandanum upp á fæðingu forms eða dauða þess.