HUGAR- OG HLJÓMBURÐUR

Skynfæri manna eru víst fimm.  Boð þeirra allra fara þó inn í sömu símstöð.  Þar eru móttökuskilyrði misgóð og iðulega lekur á milli rása.  Ótal rannsóknir sýna hvernig það sem berst inn um eitt skynfæri hefur áhrif á annað.  Tilraunir með THX hljóðkerfi í kvikmyndahúsum sýndu til dæmis að þegar sama mynd var sýnd hópi áhorfenda fyrst með eldra hljóðkerfi og svo með því nýja, þótti þeim sem horfðu myndgæðin snöggtum betri í seinna skiptið.  Ekki er nóg með að skynfærin hafi áhrif hvert á annað heldur ræður ástand heilans miklu um hvaða blæ skynjunin fær.  Maður sem þjáist af þunglyndi sér ekki sömu litina og heilbrigður maður og maður í annarlegu ástandi ruglar saman skynjun og hugarórum.

 1) Oft er talað um hljómburð eins og eðlisfræðin sé eini mælikvarði hans.  En hljóðið er fyrir manneskjur.  Salurinn er í raun á milli eyrnanna á hlustendum.
2) Ímyndum okkur að gamni vísindalega útfærðan "bragðburð", rými þar sem bragð matarins á að njóta sín ótruflað.  Er víst að við nytum þess þar?
3)  Jafnt innra sem ytra ástand allt ræður því hvernig við grípum tónlistina: Skapið, eftirvæning, minni, þekking, félagsskapur, stemning, hreyfing, lýsing, hljómur.  Til dæmis mundi hljómburður Háskólabíós batna talsvert með betri lýsingu.  Grínlaust.
4)  Því má segja að þótt hljómburður salar skipti máli sé best að gleyma ekki hljómgrunninum, jarðveginum.  Þetta veit rokkarinn: Það skiptir hann miklu að sem flestir áheyrenda séu sannfærðir áður en á tónleikana er komið.  Síðan eru spurningar eins og "Eru ekki allir í stuði?" til að hreinsa loftið, stilla eyrun og bæta móttökuskilyrðin.
5)  Það er mikilvægt starf að hanna tónleikasali þar sem órafmögnuð tónlist heyrist vel.  Þeir eru hins vegar ekki nauðsynlegir allri tónlist og ekki nægilegir sumri tónlist.  Enginn salur er góður í sjálfum sér, óháð innihaldinu: útsendingunni og móttökunni.  Oft hefur svo góður hljómgrunnur fyllilega bætt fyrir illa hljómandi sal.
6) Hljómburður eru lífsgæði hljóðsins.  Það er hin lifandi umgjörð sem býr hann til.
7)  Kannski má skýra þetta með litlu dæmi: Á Rás 1 er þátturinn Hlaupanótan.  Hann er umgjörð þar sem forvitni, fordómaleysi, opnar hlustir, næmi og glaðværð stjórnendanna smita hvern þann sem heyrir.  Enda er sama hvernig mér líkar sú tónlist sem þar er leikin, alltaf skal ég heyra hana undravel.  Jafnvel úr útvarpsgarmi.
8)  Og gríp hana jafnvel betur en stundum er á tónleikum við "bestu" skilyrði.